BSRB eru stærstu heildarsamtök starfsfólks í almannaþjónustu á Íslandi. Bandalagið var stofnað þann 14. febrúar 1942 af fjórtán stéttarfélögum með samtals um 1.550 félagsmenn.
BSRB hefur vaxið mikið síðan og í dag eru aðildarfélögin 19 talsins með um það bil 25.000 félagsmenn. Um tveir þriðju félagsmanna aðildarfélaga BSRB eru konur.
Bandalagið leiðir hagsmuna- og réttindabaráttu launafólks sem starfar í almannaþjónustu hjá ríki, sveitarfélögum, óhagnaðardrifnum stofnunum og almennum vinnumarkaði. Bandalagið talar máli félagsmanna aðildarfélaga gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum og vinnur að markmiðum sínum um að stuðla að bættu velferðarsamfélagi og auknum jöfnuði í samfélaginu. Aðildarfélög BSRB geta falið bandalaginu að fara með samningsrétt fyrir sína hönd í kjarasamningum í þeim málum þar sem þau eiga sameiginlega hagsmuni en kjarasamningsmál og gerð kjarasamninga er á hendi hvers aðildarfélags.
Hlutverk BSRB er einnig að efla aðildarfélög bandalagsins og styðja þau í því að veita félagsmönnum góða þjónustu. Hluti af því er stuðningur við gerð kjarasamninga, aðstoð við úrlausnir á lögfræðilegum álitaefnum, ýmsar greiningar og rannsóknir á sviði hagfræði og stjórnsýslu og vinna tengd fræðslu- og upplýsingamálum.
BSRB vinnur jafnframt að því að efla samstöðu meðal aðildarfélaga og stuðla að jafnræði í framkvæmd þjónustu til félagsmanna. Þá vinnur bandalagið að aukinni samstöðu og samstarfi á vinnumarkaði innanlands og erlendis.
Þing BSRB, sem haldin eru þriðja hvert ár, fara með æðsta vald í öllum málum bandalagsins. Þar móta þingfulltrúar stefnu bandalagsins og kjósa í helstu embætti. Síðasta þing bandalagsins, það 46. í röðinni, bar þess merki að það var haldið í miðjum heimsfaraldri.
Þingið var síðast haldið með rafrænum hætti september 2021 en hluta þess var frestað til 24. mars 2022 þegar hafði slaknað á faraldrinum og talið óhætt að stefna saman þingfulltrúum. Á rafrænum fundi bandalagsins kusu þingfulltrúar formann, tvo varaformenn og stjórnarmenn sem stýra starfsemi bandalagsins í samræmi við samþykktir. Allt málefnastarf fór síðan fram 24. - 25. mars 2022 þar sem ný stefna BSRB var samþykkt.
Næsta þing BSRB verður haldið 2. - 4. október 2024 á Hilton Reykjavík Nordica.
BSRB eru stærstu heildarsamtök starfsfólks í almannaþjónustu á Íslandi
Formannaráð
Formannaráð BSRB er skipað formönnum allra aðildarfélaga bandalagsins og er formaður BSRB jafnframt formaður ráðsins.
Formannaráðið fundar að lágmarki þrisvar sinnum á ári en boðað er til funda oftar ef þurfa þykir. Frá aðalfundi 24. maí 2022 hefur ráðið fundað alls þrisvar sinnum.
Sérstakur fundur var haldinn í Stykkishólmi 17. og 18. október 2022 með það að markmiði að ræða og ákveða kröfur BSRB gagnvart stjórnvöldum í aðdraganda kjarasamninga 2023. Stefnumótunarvinna og umræður fóru fram á fundinum undir stjórn formanns BSRB.
Formannaráðið skipa eftirtalin: Arna Jakobína Björnsdóttir – Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu Arnar Hjálmsson – Félag íslenskra flugumferðarstjóra Árný Erla Bjarnadóttir – FOSS – stéttarfélag í almannaþjónustu Bjarni Ingimarsson – Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna Edda Davíðsdóttir – Starfsmannafélag Mosfellsbæjar Fjölnir Sæmundsson – Landssamband lögreglumanna Guðbjörn Guðbjörnsson – Tollvarðafélags Íslands Gunnar Hrafn Gunnarsson – Starfsmannafélag Garðabæjar Hafsteinn Ólafsson – Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi Hermína Hreiðarsdóttir – Starfsmannafélag Húsavíkur Jóhanna Fríður Bjarnadóttir – Póstmannafélag Íslands Karl Rúnar Þórsson – Starfsmannafélag Hafnarfjarðar Marta Ólöf Jónsdóttir – Starfsmannafélag Kópavogs Sandra B. Franks – Sjúkraliðafélag Íslands Sonja Ýr Þorbergsdóttir – Formaður BSRB Trausti Björgvinsson – Starfsmannafélag Suðurnesja Unnur Sigmarsdóttir – Starfsmannafélag Vestmannaeyja Unnar Örn Ólafsson – Félag flugmálastarfsmanna ríkisins Þórarinn Eyfjörð – Sameyki Þórveig Þormóðsdóttir – Félag starfsmanna stjórnarráðsins
Stjórn BSRB
Á milli þinga og aðalfunda fer stjórn BSRB með æðsta vald í málefnum bandalagsins. Stjórnin stýrir starfseminni í samræmi við lög bandalagsins, stefnumörkun þings, formannaráðs og aðalfundar. Stjórnina skipa alls níu aðalfulltrúar og er formaður bandalagsins jafnframt formaður stjórnarinnar. Í stjórninni sitja formaður BSRB og 1. og 2. varaformaður BSRB ásamt sex meðstjórnendum. Til viðbótar eru sjö varamenn sem kosnir eru á þingi bandalagsins eins og aðrir stjórnarmenn og koma þeir inn á fundi stjórnar í forföllum aðalmanna.
Fundir stjórnar BSRB eru að jafnaði haldnir aðra hverja viku, nema yfir hásumarið eða við sérstakar aðstæður eins og í kjaraviðræðum. Að fundum loknum eru fundargerðir sendar aðildarfélögum bandalagsins svo forystufólk aðildarfélaganna geti verið vel upplýst um umfjöllun og afgreiðslu stjórnar á einstökum málum.
Stjórn BSRB árin 2021-2024: Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB Þórarinn Eyfjörð, 1. varaformaður BSRB Arna Jakobína Björnsdóttir, 2. varaformaður BSRB Árný Erla Bjarnadóttir Fjölnir Sæmundsson Jón Ingi Cæsarsson Karl Rúnar Þórsson Sandra B. Franks Þórveig Þormóðsdóttir Varamenn:
Marta Ólöf Jónsdóttir Unnar Örn Ólafsson Unnur Sigmarsdóttir Magnús Smári Smárason Ástríður Sigþórsdóttir Edda Davíðsdóttir Guðbjörn Guðbjörnsson
ö
Starfsfólk BSRB
Starfsfólk skrifstofu BSRB fylgir eftir stefnu bandalagsins sem mótuð er af kjörnum fulltrúum þess. Starfsfólk gætir hagsmuna launafólks hvort sem er á opinberum vinnumarkaði eða hjá opinberum fyrirtækjum sem rekin eru í almannaþágu, sinnir hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum og stendur vörð um réttindi og skyldur félagsmanna aðildarfélaga bandalagsins.
Starfsfólk BSRB undirbýr mál og skipuleggur stjórnarfundi, fundi formannaráðs og aðra fundi sem haldnir eru, stendur fyrir starfsdögum og öðrum viðburðum og kennir á námskeiðum. Starfsfólk veitir aðildarfélögum auk þess fjölbreytta þjónustu og ráðgjöf, til dæmis varðandi lög- og hagfræðileg efni, kynningarmál, menntamál og fleira. Starfsfólk á skrifstofu BSRB sér einnig um skil iðgjalda til aðildarfélaga bandalagsins í gegnum BIBS. Bandalagið sinnir einnig fræðslu og upplýsingagjöf og sér um samskipti við stjórnvöld, önnur heildarsamtök launafólks, atvinnurekendur og erlenda aðila svo fátt eitt sé nefnt.
Frá aðalfundi 2022 hafa orðið nokkrar breytingar á starfsmannamálum. Heiður Margrét Björnsdóttir hefur verið ráðin í nýja stöðu hagfræðings BSRB. Karl Sigurðsson lét af störfum sem sérfræðingur í fræðslumálum og var Fríða Rós Valdimarsdóttir ráðin í hans stað. Þá var Rakel Pálsdóttir ráðin staðgengill samskiptastjóra á meðan Freyja Steingrímsdóttir var í fæðingarorlofi frá ágúst 2022 til febrúar 2023.