Kjarasamningar & kjaradeilur
Undirbúningur kjarasamninga 2023
Kjarasamningar flestra aðildarfélaga BSRB runnu út 31. mars 2023 en hjá þeim sem semja við almenna vinnumarkaðinn á haustmánuðum 2022. Á vettvangi samningseininga bandalagsins hófst undirbúningur fyrir gerð kjarasamninga í september á síðasta ári. Fundi samningseininga sækir forystufólk, samninganefndir og starfsfólk aðildarfélaganna ásamt BSRB. Þar er rætt um og tekin ákvörðun um þau mál sem félögin vilja sameina kröfur sínar um og BSRB fer þá fyrir ásamt því að skipst er á upplýsingum um undirbúning, gang viðræðna og áherslur aðildarfélaganna.
Samningseiningar BSRB fengu Aðalstein Leifsson, ríkissáttasemjara, á fund sinn til að fjalla um undirbúning fyrir samningaviðræður og hvað skipti máli að hafa í huga þegar sest er að samningaborðinu. Meðal þeirra verkefna sem samningseiningar ákváðu að yrði á sameiginlegu borði BSRB var stytting vinnuviku í vaktavinnu á opinberum vinnumarkaði. Almennt hefur tekist vel upp með kerfisbreytingarnar sem samið var um með gerð kjarasamninga í mars 2020 en einnig ljóst að meta þurfti reynsluna og m.a. gera kröfu um betrumbætur á vaktahvata. Fjöldi funda voru haldnir um efnið þar sem bandalagið mótaði áherslur sínar til vaktavinnunnar og annarra krafna í sameiningu til undirbúnings kjarasamningsviðræðna.
Á almennum vinnumarkaði voru kjarasamningar undirritaðir í desember 2022 en vegna óvissunnar var um skammtímasamninga að ræða til 15 mánaða, frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024. Í kjölfarið tóku samningseiningar BSRB þá ákvörðun að vilji væri til þess að gera skammtímasamninga á opinberum vinnumarkaði að því gefnu að stjórnvöld myndu efna loforð sitt um jöfnun launa milli markaða. BSRB fékk þá samningsumboð fyrir hönd aðildarfélaganna um gerð kjarasamninga við ríki, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg.
Að því markmiði að tryggja að ríki og sveitarfélög myndu taka markvisst skref í átt að jöfnun launa milli markaða ákváðu einnig BSRB, BHM og KÍ að vinna saman að gerð kjarasamningana og undir lokin höfðu opinberu launagreiðendurnir þrír, ríki, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg, einnig ákveðið að vinna að frekari samstillingu og samstarfi. Þannig áttu sér því stað sexhliða viðræður um gerð kjarasamninga á opinberum vinnumarkaði, milli BSRB, BHM og KÍ annars vegar og ríkis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar hins vegar.
Leiðarljós BSRB í viðræðunum var að verja kaupmátt starfsfólks í almannaþjónustu, enda er verðbólgan farin að bíta almenning verulega og langt síðan fólk á almennum vinnumarkaði fékk sínar kjarabætur. Markmið um að kjarasamningur tæki við af kjarasamningi tókst vegna félagsfólks sem starfar hjá ríki og Reykjavíkurborg en til verkfalla kom til að knýja fram réttlátar kröfur gagnvart öðrum sveitarfélögum. Fljótlega hefst svo undirbúningur fyrir gerð langtímakjarasamninga hjá aðildarfélögum BSRB bæði hvað varðar kröfur gagnvart launagreiðendum og stjórnvöldum.
Efni kjarasamninga
Í ljósi þess að horft var til gerð skammtímakjarasamninga var ljóst að fresta þurfti umræðu um önnur mál en þau kjör sem brýnast var að bæta. Kröfur BSRB í viðræðunum snéru því að hækkun launa, desember- og orlofsuppbótar og smávægilegar betrumbætur á vaktahvata ásamt stórhátíðarálagi vaktavinnufólks. Annað bíður næstu kjarasamninga en samkvæmt verkáætlun verður á kjarasamningstímabilinu á sameiginlegu borði allra heildarsamtaka launafólks og opinberra launagreiðenda fjallað um Betri vinnutíma í dagvinnu, Betri vinnutíma í vaktavinnu, endurskoðun veikindakafla og þá verða kjör bakvaktafólks og fyrirkomulag tímavinnuráðninga til umræðu. Enn fremur hafa aðildarfélögin gert verkáætlun með viðsemjendum um tiltekin mál sem verða tekin til umræðu fljótlega til að undirbúa gerð næstu kjarasamninga. Þá eiga kröfugerðir stéttarfélaga að liggja fyrir 31. október n.k. og viðræður um gerð nýs kjarasamning skulu hefjast eigi síðar en 15. nóvember n.k. að því markmiði að kjarasamningur taki við af kjarasamningi.
Kjarasamningar aðildarfélaga BSRB við ríki og Reykjavíkurborg voru undirritaðir 30. og 31. mars og við Samband íslenskra sveitarfélaga 10. júní. Allir samningarnir voru samþykktir í atkvæðagreiðslum meðal félagsfólks. Kjarasamningarnir gilda í tólf mánuði frá 1. apríl 2023.
Kjaradeila BSRB félaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga
Á síðustu dögum marsmánaðar náðu aðildarfélög BSRB samkomulagi um launahækkanir og kjarabætur fyrir starfsfólk í almannaþjónustu við ríki og Reykjavíkurborg. Hins vegar slitnaði upp úr samningsviðræðum BSRB við Samband íslenskra sveitarfélaga og var kjaradeilunni vísað til ríkissáttasemjara þann 4. apríl.
Deilan snerist í kjarnann um að nýr kjarasamningur þyrfti að endurspegla þá launamismunun sem starfsfólk BSRB félaga hjá sveitarfélögunum varð fyrir í byrjun árs 2023 vegna mismunandi gildistíma samninga. Félagsfólk aðildarfélaga BSRB gat ekki sætt sig við að fólk sem vinnur sömu eða sambærileg störf, jafnvel inni á sömu vinnustöðum ætti að fá 25% minni launahækkun en þau.
Þar sem Samband íslenskra sveitarfélag neitaði að verða við þeirri kröfu var farið í atkvæðagreiðslur um verkföll víðsvegar um landið, auk herferðar, til að knýja sveitarfélög landsins að borðinu. Stígandi var í verkföllunum með hverri vikunni sem leið en þau stóðu yfir frá 15. maí til 10. júní þegar kjarasamningar voru loks undirritaðir. Verkfallsaðgerðirnar voru víðtækar en þær náðu alls til 2500 félaga í 30 sveitarfélögum. Starfsfólk í leikskólum, grunnskólum, höfnum, sundlaugum, íþróttamannvirkjum, þjónustumiðstöðvum, bæjarskrifstofum, áhaldahúsum og fleiri vinnustöðum lögðu niður störf. Áhrif verkfallanna gætti á að minnsta kosti 150 starfsstöðvum um allt land. Ekki var gripið til verkfallanna af léttúð heldur til að knýja fram kröfur gagnvart sveitarfélögum landsins neituðu að leiðrétta launamisrétti gagnvart starfsfólki sínu. Niðurstaðan varð sú að mánaðarlaun hækkuðu að lágmarki um 35.000 kr, samkomulag náðist um sáttagreiðslu að upphæð 105.000 kr. eftir að ríkissáttasemjari lagði fram innanhústillögu auk þess sem samið var um hækkun á lægstu launum og viðbótargreiðslur fyrir tiltekin starfsheiti. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024 og nær til um 7000 félagsmanna BSRB.
Jöfnun launa milli markaða
Árið 2016 sömdu ríki, sveitarfélög og heildarsamtök launafólks um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Markmið samkomulagsins var að tryggja sjálfbærni lífeyriskerfisins og kjör launafólks á opinberum og almennum vinnumarkaði yrðu jöfnuð eins og kostur er. Jafnframt var samið um að jafna eigi laun einstakra starfshópa milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins til að tryggja að ekki sé kerfislægur launamunur milli markaða. Jöfnunin átti að eiga sér stað á 6-10 árum sem þýðir að henni á að vera lokið árið 2026 í síðasta lagi. Í þessum kjarasamningsviðræðum var krafa BSRB og aðildarfélaga að tekið yrði markvisst skref í átt að jöfnuninni til að tryggja að loforð stjórnvalda verði efnt. Niðurstaðan er áfangasamkomulag um skref í átt að jöfnun launa fyrir þær starfsstéttir þar sem skýrar vísbendingar eru um ómálefnalegan og kerfislægan launamun milli markaða, eða hópa sem tilheyra heilbrigðis- og velferðarþjónustu og veita klíníska þjónustu og menntastofnunum sem sinna kennslu. Nefnd um jöfnun launa milli markaða mun svo áfram vinna að framkvæmd jöfnunar til framtíðar. Hóparnir sem munu fá leiðréttingu samkvæmt áfangasamkomulaginu eiga það sameiginlegt að opinberir launagreiðendur eru að meginstofni til eini launagreiðandinn sem stundum er kallað einkeypisstéttir. Í því felst að sambærileg starfsheiti eru almennt ekki fyrir hendi á vinnustöðum á almennum vinnumarkaði.
Til að vinna að framkvæmd þessa áfanga verða skipaðir tveir undirhópar, annars vegar um störf tiltekinna hópa hjá ríkinu og hins vegar hjá sveitarfélögunum þar sem samtök launafólks á opinberum vinnumarkaði á einnig sæti. Lagt var upp með að tillögur þessa tveggja hópa myndi liggja fyrir í lok ágúst 2023 og leiðrétting á að taka gildi 1. október n.k. Launamyndun starfsfólks sem starfar hjá ríki og sveitarfélögum er ólík, þannig verður fyrst og fremst horft til leiðréttingar í gegnum stofnanasamninga hjá ríkinu en starfsmats hjá sveitarfélögunum.
Um er að ræða áfanga í vinnu 7. gr. nefndarinnar sem kemur til framkvæmda á árinu 2023 til einstakra hópa í samræmi við ofangreint. Nefndin heldur eftir sem áður áfram störfum á grundvelli upprunalega samkomulagsins frá 2016 undir stjórn ríkissáttasemjara samkvæmt tímasettri verkáætlun. Helstu verkefni nefndarinnar verða að greina frekar kerfislægan og ómálefnalegan launamun milli markaða, dýpka og þróa aðferðarfræði í því sambandi, skilgreina hlutlæg viðmið og ákvarða hvort og hvenær leiðrétta beri launamun einstakra hópa