Samstaða og baráttuandi einkenndi starfsár BSRB sem var viðburðaríkt - jafnvel enn viðburðaríkara en við áttum von á þegar við hófum undirbúning kjarasamninga haustið 2022.
Kjarasamningsviðræðurnar við ríki og sveitarfélög stóðu frá desember 2022 og síðustu samningar voru undirritaðir í júní 2023. Samningarnir gilda hins vegar í eitt ár svo það styttist í undirbúning næstu lotu. Þrátt fyrir að kjarasamningsviðræður við ríki og borg tækju lengri tíma en ráðgert var tók kjarasamningur við af kjarasamningi sem er fagnaðarefni. Kjarasamningsviðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga endaði hins vegar í hörðum hnút þegar ljóst varð að sveitarfélögin neituðu að leiðrétta augljóst launamisrétti okkar félagsfólks gagnvart fólki í sömu eða sambærilegum störfum. Okkur fannst fjarstæðukennt að það þyrfti að grípa til verkfalla til að knýja fram svo sjálfsagða réttlætiskröfu en það varð niðurstaðan.
Verkfallsaðgerðirnar náðu alls til um 2500 félagsfólks í 30 sveitarfélögum og áhrifanna gætti víða. Það sem stendur upp úr á þessu ári er hugrekkið, baráttuþrekið og samstaða okkar fólks sem vakti athygli á baráttunni með margvíslegum hætti, svo sem með því að mótmæla fyrir utan bæjarskrifstofur, halda ræður, skrifa greinar, halda og mæta á samstöðufundi, vekja athygli á sameiginlegri auglýsingaherferð (oft með mjög skapandi hætti) og svo mætti lengi telja ýmist á vegum síns stéttarfélags undir styrkri stjórn formanna félaganna eða jafnvel að eigin frumkvæði. Samfélagið allt stóð líka sterkt með verkfallsfólki enda vita þau sem er, að þau eru ómissandi! Stuðningurinn birtist meðal annars í því að foreldrar leikskólabarna skipulögðu kröftug mótmæli, skrifuðu greinar og vöktu athygli á málinu á samfélagsmiðlum. Það er ómetanlegt og leiddi til kjarasamninga þar sem markmið okkar náðust að mestu leyti.
Varða rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins birti í maí á þessu ári sína árlega könnun um stöðu launafólks. Þó það komi tæplega á óvart að staða launafólks hafi versnað milli ára í ljósi mikillar verðbólgu þá eru niðurstöðurnar engu að síður sláandi. Tæplega helmingur vinnandi fólks á erfitt með að ná endum saman og þeir hópar sem eiga í mestri hættu á að búa við efnislegan skort eru einstæðir foreldrar og innflytjendur.
Við búum í ríku landi – en samt ná stórir hópar láglaunafólks, atvinnulausra, öryrkja og eldra fólks vart að draga fram lífið. Verðbólga hefur lækkað lítillega en er enn mjög há og vaxtahækkanir bíta fast – helst þá hópa sem síst skyldi. Á meðan gerir ríkisstjórnin ekkert til að bregðast við og auka jöfnuð, jafnvel þó hún hafi öll tækin til þess að koma fólki til aðstoðar með húsnæðisstuðningi, vaxta- og barnabótum.
Við stöndum nú frammi fyrir næstu kjarasamningslotu þar sem BSRB og aðildarfélög bandalagsins munu sækja réttlátar kjarabætur fyrir launafólk. Ekki einungis þær sem birtast í launaumslaginu. Heldur ekki síður þær sem birtast í mikilvægum samfélagsbreytingum sem varða okkur öll.
Þrátt fyrir að kjarasamningsviðræður og kjarabarátta hafi einkennt starfsárið voru verkefni bandalagsins að vanda fjölbreytt og er það von okkar að skýrsla stjórnar veiti góða yfirsýn þar um. Öll sem komu þar að eiga miklar þakkir skildar. Öflugt málefnastarf og stefnumótunarvinna fór fram í formannaráði BSRB og stjórn bandalagsins vann ötult starf. Starfsfólk skrifstofu BSRB vann ómetanlegt starf á annasömu ári og fulltrúar bandalagsins í fjölda nefnda, stjórna og ráða stóð vaktina í hagsmunabaráttunni. Sú ríka samstaða sem hefur einkennt okkur er ekki sjálfgefin – það er okkar styrkleiki og hefur skilað þeim árangri sem náðst hefur hingað til. Og áfram höldum við!