Stefna BSRB í framkvæmd
Allt starf BSRB grundvallast á stefnu sem mörkuð er á lýðræðislegum þingum bandalagsins.
Húsnæðismál
Öruggt húsnæði eru mannréttindi sem að BSRB stendur vörð um. Hið opinbera á að tryggja fólki slíkt öryggi með framboði af húsnæði á viðráðanlegu verði, húsnæðisstuðningi og efnahagsaðgerðum sem draga úr óeðlilegri hækkun húsnæðisverðs. Bandalagið leggur mikla áherslu á málaflokkinn og þetta árið var engin undantekning.
BSRB hefur átt aðkomu að þremur starfshópum stjórnvalda um húsnæðismál undanfarið ár. Sá fyrsti lagði fram tillögur í maí 2022. Umfangsmesta tillaga hópsins var sú að ríki og sveitarfélög gerðu með sér húsnæðissáttmála og síðan yrði samið við hvert sveitarfélag fyrir sig um uppbyggingu í samræmi við sáttmálann. Húsnæðissáttmálinn, sem undirritaður var í júlí 2022, kveður á um að byggja skuli 35.000 íbúðir á næstu 10 árum, þar af 4.000 íbúðir á ári næstu 5 árin. Af þeim skulu 30% vera á viðráðanlegu verði, þ.e. almennar íbúðir eða hlutdeildarlánaíbúðir. Auk þess skulu um 5% íbúðanna vera félagslegt leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaganna. Enn sem komið er hefur verið undirritaður samningur við eitt sveitarfélag, Reykjavíkurborg.
Nú er að störfum starfshópur um endurskoðun á húsaleigulögum sem hefur það hlutverk að leggja fram tillögur sem hafa það að markmiði að því að auka búsetuöryggi fólks með gerð langtímaleigusamninga í stað skammtímasamninga og um aukinn fyrirsjáanleika þegar kemur að breytingum á leigufjárhæð að því markmiði að þær séu sanngjarnar og eðlilegar. Fulltrúi BSRB, BHM og KÍ í þessum tveimur starfshópum er Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB. Hún sat einnig, fyrir hönd BSRB, í starfshópi um húsnæðistuðning sem skilaði tillögum í desember 2022. Þar var lagt til að húsnæðisbætur hækkuðu til samræmis við verðlag miðað við ársbyrjun 2017 og yrðu í framhaldinu sameinaðar sérstökum húsnæðisstuðningi til að auka jafnræði milli leigjenda óháð því í hvaða sveitarfélagi þeir búa. Þá var lagt til að eignaskerðingamörk í vaxtabótakerfinu yrðu hækkuð og að almenn ráðstöfun sérstaks húsnæðisstuðnings inn á fasteignalán yrði framlengd út árið 2024.
Bjarg íbúðafélag
Frá stofnun Bjargs íbúðafélags árið 2016 hafa BSRB og ASÍ átt í góðu samstarfi innan félagsins um uppbyggingu leiguíbúða á viðráðanlegu verði fyrir tekjulægstu félaga aðildarfélagana. Félagið er rekið án hagnaðarsjónarmiða. Uppbyggingin hjá félaginu hélt áfram á tímabilinu. Fyrsta íbúðin var afhent árið 2019 en í dag hafa 811 íbúðir verið afhentar leigutökum, 245 íbúðir eru í hönnunarferli eða byggingu og 863 íbúðir eru í undirbúningi.
Blær Íbúðafélag
ASÍ og BSRB hafa sett á stofn Blæ ehf. Tilgangur félagsins er þróun byggingarverkefna og fasteignamiðlun en þannig er stefnt að Blær verði leigufélag fyrir meðaltekjuhópinn eða þar sem tekjuþaki Bjargs sleppir. Enn á eftir að finna leiðir til fjármögnunar slíkra verkefna. Einstaka stéttarfélög geta einnig staðið fyrir verkefnum á borð við byggingu leiguíbúða á vegum Blævar til að nýta sér þá sérfræðiþekkingu sem þar er fyrir hendi en Blær er í nánu samstarfi við Bjarg. Þannig verður fyrsta verkefni á vegum Blævar framkvæmd á vegum VR stéttarfélags.
Þjóðhagsráð: Þjóðhagsráð, er samráðsvettvangur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Markmið með vinnu ráðsins er að styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði með hliðsjón af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika og áhrifum á loftslagsmál. Að jafnaði fundar ráðið fjórum sinnum á ári en hefur fundað örar í tengslum við gerð kjarasamninga. Dagskrá funda ráðsins hafa undanfarið ár litast mjög af kjaraviðræðum, verðbólgu og vaxtahækkunum. Meðal greininga og umræðuefna voru staða og horfur á vinnumarkaði, langtímahorfur í opinberum fjármálum og leiðir til tekjuöflunar, staða og aðgerðir á húsnæðismarkaði, fjármál sveitarfélaga, staða efnahagsmála, samkeppnismál og fjármálaáætlun. Einnig er umræða hafin um ýmsa þætti sem geta haft áhrif á gerð langtímasamninga vorið 2024.
Kjaratölfræðinefnd: Vinna kjaratölfræðinefndar hefur haldið áfram á árinu, en nefndin varð til með samkomulagi aðila vinnumarkaðarins, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra, Hagstofu Íslands og Ríkissáttasemjara í maí 2019. Markmiðið með starfi nefndarinnar er að safna og hagnýta tölfræðigögn um laun og efnahag til að undirbúa betur gerð kjarasamninga og fylgja þeim eftir. Nefndinni er ætlað að stuðla að því að aðilar samkomulagsins hafi sameiginlegan skilning á eðli, eiginleikum og þróun hagtalna sem mestu varða við gerð kjarasamninga. Á árinu 2022 komu venju samkvæmt út tvær skýrslur, ein að vori og önnur að hausti. Umfjöllun í skýrslunum skiptist jafnan í umfjöllun um efnahagsmál, kjarasamninga í yfirstandandi kjaralotu, launaþróun eftir heildarsamtökum og samanburð á launum karla og kvenna. Efni skýrslnanna hefur komið að góðum notum. Í þeim er m.a. að finna aðgengilegan samanburð á milli heildarsamtaka og kynja sem ekki er að finna annars staðar.
Hagsmunagæsla og samstarf
Samstarf við önnur heildarsamtök á íslenskum vinnumarkaði hefur haldið áfram enda hefur sú samstaða sem náðst hefur um mikilvæg mál aukið slagkraft íslensks launafólks.
Reglulega er fundað með ASÍ, BHM og KÍ um sameiginleg mál á borð við kröfur gagnvart stjórnvöldum vegna verðbólgu og vaxtahækkana, stöðunnar á húsnæðismarkaði, jöfnun launa milli markaða, lífeyrismála og sameiginlegar áherslur um aukinn jöfnuð og bætt lífskjör almennings.
Jafnréttismál
Kvennaframboð 40 ára
Kvennalistakonur buðu til opins kvennaþings þann 18. mars í tilefni 40 ára afmæli Kvennalistans. Formaður BSRB hélt erindi á fundinum undir yfirskriftinni “Fjárhagslegt sjálfstæði kvenna.” Hún minnti á að stærsta skrefið sem við getum tekið í átt að fullu jafnrétti kynjanna sé ótvírætt að tryggja konum örugga framfærslu og fjárhagslegt sjálfstæði. Þar þurfi að horfa til atvinnuþátttöku, starfsaðstæðna, launa og lífeyrisgreiðslna – en líka takast á við rótgróin viðhorf um ólíka stöðu og hlutverk kynjanna sem viðhalda megnu ójafnrétti.
Baráttudagur kvenna 8. mars
Boðað var til stafræns hádegisfundar á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars. Yfirskrift fundarins var Ryðjum brautina: Metum konur af erlendum uppruna að verðleikum. Að fundinum stóðu BSRB, ASÍ, BHM, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga Fíh, Kvenréttindafélag Íslands, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja og Kennarasamband Íslands. Anna Wojtynska, nýdoktor í Háskóla Íslands, flutti aðalfyrirlestur fundarins um stöðu kvenna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði. Endurmat á virði kvennastarfa
Aðgerðahópur um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði var skipaður af forsætisráðherra þann 13. desember 2021. Stofnun hans á rætur að rekja til kröfu BSRB um að gripið verði til aðgerða til að leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum.
Meginverkefni aðgerðarhópsins er að leggja fram tillögur og vinna að framkvæmd aðgerða til að útrýma launamun kynjanna.
Jafnréttismálin eru ávallt einn af höfuðmálaflokkum BSRB og er markmið bandalagsins að tryggja að stjórnvöld og atvinnurekendur vinni markvisst að jafnrétti með því að tryggja jöfn tækifæri og jafna meðferð fólks á vinnumarkaði. Baráttan fyrir bættum kjörum kvennastétta og fjárhagslegu sjálfstæði kvenna einkenndi starfsárið.
Hinsegin vinnumarkaður
BSRB, Samtökin '78, BHM og ASÍ kynntu á Hinsegin dögum 2022 niðurstöður rannsóknar á stöðu hinsegin fólks á íslenskum vinnumarkaði í Veröld - húsi Vigdísar. Þar undirrituðu formenn BSRB, BHM og forseti ASÍ viljayfirlýsingu um aukið samstarf og greiningar á stöðu jafnréttis á íslenskum vinnumarkaði. Heildarsamtökin fengu einnig að taka þátt í gleðigöngunni til að sýna baráttu hinsegin fólks stuðning.
Þá stóð Jafnréttisnefnd BSRB fyrir opnum fræðslufundi um hinsegin málefni fyrir formenn og starfsfólk aðildarfélaga BSRB þar sem fræðslustýra Samtakanna 78, Tótla I. Sæmundsdóttir, var með erindi um fjölbreytileika kyns og kynverundar.
50 ára afmælisþing NFS
Fulltrúar úr verkalýðshreyfingunni á Norðurlöndunum komu saman á 50 ára afmælisþingi NFS Norræna verkalýðssambandsins í Osló dagana 27. – 29. september 2022. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur bandalagsins sóttu þingið fyrir hönd BSRB.
Meðal þess sem var í brennidepli var uppgangur hægri öfgaafla í Evrópu, ógn þess við lýðræðið og mikilvægi verkalýðshreyfingarinnar fyrir virkt lýðræði. Þá var fjallað um norrænt samstarf á tímum óvissu og stríðið í Úkraínu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði þingið á skjá þar sem hún tilkynnti að undir formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á næsta ári, myndi ríkisstjórnin bjóða til fundar aðilum vinnumarkaðarins á Norðurlöndum til að ræða réttlát umskipti.
Þingið sendi frá sameiginlega yfirlýsingu þar sem lýst er áhyggjum af þeim ógnum sem steðja að verkalýðsfélögum og aðför ríkisstjórna og atvinnurekenda að lífskjörum launafólks í Evrópu.
Þing Alþjóðasambands verkalýðsfélaga
Fimmta þing Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC) var haldið í nóvember 2022 í Melbourne Ástralíu undir yfirskriftinni Nýr samfélagssáttmáli, A New Social Contract. Áður en þingið hófst var haldið fjórða kvennaþing ITUC. Aðildarfélög ITUC eru 332 og starfa fyrir 200 milljónir launafólks í 163 löndum. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur bandalagsins sóttu þingið fyrir hönd BSRB.
Meginverkefni þingsins var gerð stefnuyfirlýsingar til næstu fjögurra ára sem ætlað var að verða uppdráttur að nýjum samfélagssáttmála. Innleiðing nýs samfélagssáttmála myndi tryggja að réttindi séu virt, mannsæmandi vinnu, græn og góð störf, að öll geti lifað af launum sínum, rétt stéttarfélaga til að gera kjarasamninga við atvinnurekendur, félagsvernd, jafnrétti og inngildingu. Fyrirtækjum ber að taka samfélagslega ábyrgð og taka þátt í að festa nýjan samfélagssáttmála í sessi með þátttöku í þríhliða samtali við samtök launafólks og stjórnvöld. Forsenda þess að skapa megi þessa framtíð er að launafólk standi enn sterkari saman og skipuleggjum okkur enn betur.
Erlent samstarf
BSRB á í góðu samstarfi við erlend heildarsamtök launafólks en bandalagið er aðili að Alþjóðasambandi verkalýðsfélaga, ITUC, Evrópusambandi verkalýðsfélaga, ETUC, og Norræna verkalýðssambandinu, NFS. Þing sambandanna sem haldin eru á 3-4 ára fresti eru sótt, auk þess sem fylgst er með málum sambandanna annars vegar beint og hins vegar í gegnum NFS.
Áfram hefur BSRB lagt mesta áherslu á samstarf í gegnum Norræna verkalýðssambandið, NFS, en tveir stjórnarfundir eru haldir á ári hjá sambandinu sem formaður bandalagsins situr. Á fundum NFS hefur að undanförnu mikið verið fjallað um viðbrögð heildarsamtaka launafólks og stjórnvalda við efnahagslegu ástandi í kjölfar heimsfaraldursins, stríðið í Úkraínu, umræðu innan Evrópusambandsins um setningu reglugerðar um lágmarkslaun, réttlát umskipti, fyrirhugað þing NFS og þing ITUC sem bæði fóru bæði fram síðasta haust.
Þá á situr fulltrúi BSRB í Ráðgjafarnefnd EFTA sem skipuð er fulltrúum aðila vinnumarkaðarins frá Íslandi, Noregi, Liechtenstein og Sviss og fundar reglulega.
BSRB tekur einnig reglulega á móti erlendum gestum en á síðasta starfsári heimsóttu m.a. þingmenn frá velferðarnefnd þýska þingsins, framkvæmdarstjóri EFTA og starfsfólk úr vinnumarkaðs- félags- og fjölskyldumálaráðuneyti Slóvakíu bandalagið.
Baráttudagur launafólks 1. maí
Baráttudagur launafólks árið 2023 var merkisdagur þar sem 100 ár voru þá liðin frá því fyrsta kröfugangan var gengin á Íslandi. Dagurinn var haldinn hátíðlega um allt land en í Reykjavík var í fyrsta skipti gengið niður Skólavörðustíg. Blásið var til sérstakrar herferðar til að hvetja til þátttöku sem var mjög góð. Á baráttufundi á Ingólfstorgi blés formaður BSRB fundargestum byr í brjóst og fleiri í forystu BSRB ávörpuðu einnig launafólk m.a. á Akureyri.
Kynningarmál
Ýmislegt hefur gerst í kynningarmálum BSRB á síðastliðnu starfsári og áfram unnið markvisst að kynningarmálum bandalagsins með gerð nýrrar kynningaráætlunar þar sem sett eru fram markmið um sýnileika og virkni í kynningarmálum. Enskur og pólskur vefur BSRB leit dagsins ljós á tímabilinu auk þess sem stafræn skýrslugerð var tekin upp. Þá hóf bandalagið einnig göngu sína á Instagram.
- Fjölmiðlavöktun og greiningar: Samskiptastjóri vaktar umræðu sem tengist bandalaginu í fjölmiðlum og þá málaflokka sem snerta stefnu bandalagsins. Samantekt með fréttum er send á starfsmenn BSRB og stjórn bandalagsins flesta vikudaga.
- Vefur BSRB: Reglulega eru birtar fréttir, skoðanapistlar og fróðleikur á vef BSRB sem er heimsóttur af þúsundum gesta ár hvert. Þar má finna ýmsar upplýsingar um bandalagið, aðildarfélög og réttindi launafólks sem eru uppfærðar reglulega. Þá leit ensk og pólsk útgáfa vefsins dagsins ljós á starfsárinu til að auka aðgengi þeirra sem ekki tala íslensku að þjónustu og upplýsingum.
- Umfjöllun á miðlum: BSRB vekur athygli fjölmiðla á verkefnum bandalagsins og áherslum með það að markmiði að auka sýnileika og slagkraft BSRB. Auk frétta og viðtala í dagblöðum, á vefmiðlum og í sjónvarpsfréttum taka forsvarsmenn BSRB einnig þátt í umræðum um samfélagsmál sem tengjast stefnu bandalagsins í útvarpsviðtölum og helgarþáttum.
- Auglýsingar: Til að auka sýnileika og slagkraft BSRB í mikilvægum málaflokkum birtir bandalagið reglulega auglýsingar á samfélags- og vefmiðlum, í blöðum og útvarpi.
- Fréttabréf BSRB: BSRB sendir út fréttabréf mánaðarlega til áskrifenda með helstu fréttum og fróðleik frá mánuðinum sem var að líða. Fjögur til fimm þúsund áskrifendur lesa fréttabréfið í hverjum mánuði.
- Fundir og ráðstefnur: Haldnir eru fundir, málstofur og ráðstefnur um málefni sem BSRB vill koma í umræðuna, eftir því sem tilefni gefast til og miðað við að bandalagið standi fyrir eða taki þátt í fjórum fundum eða ráðstefnum á ári. Bandalagið skipuleggur auk þess fundi í samstarfi við önnur heildarsamtök launafólks.
- Samfélagsmiðlar: BSRB nýtir samfélagsmiðla til að miðla fréttum og áherslum bandalagsins til félaga í aðildarfélaga, hagaðila og almennings. Hingað til hefur bandalagið lagt áherslu á birtingar á Facebook en einnig hefur nýlega verið opnaður reikningur á Instagram þar sem hægt er að ná betur til ákveðinna markhópa bandalagsins þar.
- Stafræn skýrslugerð: Auk ársskýrslu gefur BSRB reglulega út aðrar skýrslur um efni sem tengjast starfsemi bandalagsins, svo sem umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Ákveðið hefur verið að taka upp stafræna skýrslugerð til að lækka kostnað, auka skilvirkni, minnka kolefnisspor og bæta ímynd bandalagsins með myndrænna efni. Þannig má mæla lestur og miðla skýrslunum með nýjum aðferðum auk þess sem þær eru aðgengilegar fyrir fatlað fólk. Fyrsta skrefið í þessu er útgáfa stafrænnar ársskýrslu BSRB 2023.
Herferðir BSRB skipuleggur reglulega auglýsingaherferðir sem hluti af hagsmunabaráttu fyrir starfsfólk í almannaþjónustu. Samhliða kjaraviðræðum og verkföllum á árinu skipulagði BSRB auglýsingaherferð ætlað að sækja meðbyr í samfélagið, auka sýnileika og knýja sveitarfélögin að samningsborðinu. Herferðinni var hleypt af stað 9. maí 2023 undir yfirskriftinni „Sömu laun fyrir sömu störf” og vakti mikla athygli.
þeirra sem heimsækja vef BSRB eru konur.
þeirra sem heimsækja vef BSRB eru milli 25 og 34 ára.
Varða - rannsóknarstofnun
Á árinu hefur starfsemi Vörðu, sem ASÍ og BSRB stofnuðu í maí 2020, verið öflug. Stærsta verkefni starfsársins var umfangsmikil könnun um stöðu launafólks á Íslandi. Niðurstöður könnunarinnar vöktu athygli enda kom m.a. fram versnandi fjárhagsstaða frá því í fyrra. Varða hélt vel sótta kynningu á niðurstöðunum þann 3. maí í Þjóðmenningarhúsinu í samstarfi við BSRB og ASÍ.
Varða hlaut þrjá rannsóknastyrki á árinu. Þau verkefni sem unnin verða fyrir tilstilli þeirra er rannsókn á samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs barnafjölskyldna, langtímarannsókn á stöðu innflytjenda og lífsskilyrði og heilsa starfsfólks í ræstingum.
Verkefni Vörðu eru að fylgjast með þróun lífsskilyrða launafólks í víðri merkingu. Öflun gagna um stöðu launafólks er nauðsynleg í baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir betri kjörum og réttlátara samfélagi.